Guðmundur Björnsson, nýr markaðsstjóri Icewear, segir tilviljun ráða því að hann byrjaði í sölu- og markaðsmálum.

„Ég byrjaði sem sölumaður í heildverslun á Ísafirði sem heitir Sandfell. Það kom til vegna þess að ég var að æfa handbolta á Ísafirði en ég var að vinna svo mikið í fiski heima í Bolungarvík, að Jakobi Jónssyni, þjálfara mínum, leist ekkert á hvað ég var alltaf of þreyttur á æfingum þannig að hann reddaði mér þessari vinnu,“ segir Guðmundur sem síðar menntaði sig í greininni.

„Þar áttaði ég mig á að þetta átti mjög vel við mig og í framhaldi var ég svo ráðinn suður til Reykjavíkur til Sól-Víking sem sölumaður, en við vorum að vinna mikið fyrir þá fyrir vestan. Mér hefur einhvern veginn gengið vel í þessu og náð að vinna mig upp en reynslan kennir mér helst að það eru engin töfrabrögð til í markaðssetningu, þetta er allt vinna.“

Guðmundur eyðir frítíma sínum mikið með fjölskyldu sinni, en hann á tvær dætur, sem eru átta og ellefu ára, með konu sinni.

„Okkur finnst skemmtilegast að fara vestur saman, þar sem maður getur gleymt sér inn á milli fjallanna, heimsótt fjölskyldu og vini og haft gaman saman. Við reynum yfirleitt að fara að lágmarki tvisvar á ári vestur, þá á Aldrei fór ég suður um páskana og á drulluboltann um Verslunarmannahelgina.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.