Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segist ekki gera ráð fyrir uppsagnarhrinu hjá fyrirtækinu.

Það hefur verið lögð mikil áhersla á þessa samlegð og hagræðingu sem næst við sameiningu félaganna. Stærsti hlutinn felst í lægri rekstrarkostnaði, hvar eru helstu tækifærin þar? Felur hagræðingin í sér hagræðingu hvað varðar fjölda starfsfólks?

„Stærstur hluti kemur út úr tæknilegri samlegð, svo munum við líka ná samlegð í innkaupum frá birgjum. Við tökum okkur 12-18 mánuði og við getum eflaust eitthvað fækkað stöðugildum, en það verður gert með starfsmannaveltu yfir tíma. Við erum ekki að gera ráð fyrir einhverri uppsagnahrinu út af þessum viðskiptum. Það verður spennandi verkefni fyrir okkur að byggja upp hagkvæmara og sterkara fyrirtæki.“

Þið nefnduð einhverja áhættuþætti við samrunann, m.a. íþyngjandi kvaðir af hálfu Samkeppniseftirlitsins. Hvaða kvöðum hafið þið mestar áhyggjur af?

„Það er erfitt að segja. Það eru auð­vitað ákveðin fordæmi, t.d. í sameiningu Símans og Skjásins, þannig við vitum svo sem hvað hefur verið samþykkt. En það er auðvitað þannig að kvaðirnar gætu orðið það íþyngjandi að það væri ekki lengur samlegð í viðskiptunum og þá auðvitað gæti orðið forsendubrestur. Við berum auðvitað virðingu fyrir því að Samkeppniseftirlitið þarf að skoða málið og við teljum að það eigi að verða möguleiki með skilyrðum á að tryggja öfluga samkeppni eftir viðskiptin.

Markaðurinn hefur breyst mjög mikið á síðustu árum, það er t.d. orðið mun einfaldara að stofna þjónustufyrirtæki á sviði internets, þar sem bæði Gagnaveita Reykjavíkur og Míla eru komnar með vettvangsþjónustu, þannig að þú þarft ekki lengur að byggja þína eigin vettvangsþjónustu eins og áður. En af þeim kvöðum sem við höfum séð, þá finnst okkur það vera eitthvað sem við gætum lifað með, en það verður auðvitað bara að koma í ljós hverjar endanlegar kvaðir verða og hvort það breyti of mikið forsendum viðskiptanna.

Ég geri ráð fyrir því að Samkeppniseftirlitið muni gefa sér góðan tíma til að skoða þetta. Eftirlitið hefur 115 virka daga og við gerum ráð fyrir því að þetta verði á seinni hluta ársins, kannski ekki fyrr en á fjórða ársfjórðungi.“

Veist ekkert hvað gerist eftir ár

Stefán segir að starfsumhverfi fyrirtækja sé ekki eins og best verður á kosið og viðurkennir að þar spili miklar launahækkanir inn í.

„Þetta hefur verið mjög áhugavert fyrir mig sem hagfræðing sem vann á fjármálamarkaði. Sem hagfræð- ingur hefur maður heyrt það allt sitt líf að 5-8% launahækkanir hljóti að fara út í verðlagið. Svo fer maður yfir í fyrirtæki og það er mjög lærdómsríkt að finna á eigin skinni af hverju, því það eru bara tvær leiðir fyrir fyrirtækið að halda arðsemi sinni; að fleyta launahækkuninni út í verðlagið eða lækka rekstrarkostnað. Þó að mér finnist Vodafone og fleiri fyrirtæki hafa náð miklum árangri í að bregðast við síðustu launahækkunarhrinu með ýmsum hagræðingaraðgerðum, m.a. fækkun stöðugilda, þá er það auðvitað þannig að fyrirtæki geta ekki leikið þann leik ár eftir ár,“ segir Stefán.

„Það er kannski umhugsunarefni af hverju við semjum alltaf um svona mun hærri prósentuhækkanir á launum heldur en aðrar þjóðir. Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni fyrir fyrirtæki, nú erum við með sterka krónu í sögulegu samhengi og í rauninni gætu skilaboðin sem í þessu felast verið þau að íslensk fyrirtæki eigi að reyna að útvista eins mörgum störfum og þau geta úr landi. Sterk króna, lágt atvinnuleysi og háar nafnlaunahækkanir.

Vandamálið við Ísland er hins vegar að þú veist ekkert hvað gerist eftir eitt ár og hvað gerist eftir tvö ár, forsendur eru fljótar að breytast sem skapar kostnað fyrir fyrirtæki.“ Hann segir einnig að trúverðugleiki gjaldmiðilsins sé vandamál og eigi mögulega þátt í miklum launahækkunum.

„Það má velta því fyrir sér hvort við semjum alltaf um svona háar hlutfallslegar launahækkanir vegna þess að gjaldmiðillinn okkar hefur engan trúverðugleika? Mér finnst við ennþá vera í sömu stöðu og alltaf áður, við getum talað um einhvern stöðugleika og svo framvegis, en stöðugleikinn í trúverðugleika þess hvað er að fara að gerast á næstu árum með tilliti til gjaldmiðilsins og vaxta er ennþá mjög lítill, og það er erfiðara að reka fyrirtæki í slíku umhverfi heldur en í umhverfi sem býður upp á meiri stöðugleika og fyrirsjáanleika. Ef við gætum einhvern veginn búið hérna til umgjörð sem væri fyrirsjáanlegri og við gætum tekið ákvarðanir til lengri tíma, þá held ég að það yrði til mikilla hagsbóta fyrir launþega og fyrirtækjarekendur.“

Nánar er fjallað við Stefán í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .