„Líkt og oft í efnahagsuppsveiflu er hætta á verðbólu á íbúðamarkaði,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka. „Menn hafa tengt þá hættu við gjaldeyrishöftin, en rétt er að minna á í því sambandi að síðasta verðbóla á þessum markaði fæddist hér á landi þegar fjármagnsflæði var frjálst.

Við fylgjumst náið með ýmsum mælikvörðum sem hafa sögulega þótt góðir til að gefa vísbendingar um hvort verðbóla sé til staðar. Má þar nefna raunverð íbúðarhúsnæðis, verð íbúðarhúsnæðis á móti launum, verð íbúðarhúsnæðis á móti byggingarkostnaði og verð íbúðarhúsnæðis á móti greiddri húsaleigu. Skemmst er frá því að segja að staða þessara mælikvarða nú bendir til þess að ekki sé verðbóla á íbúðamarkaðinum.“

Greining Íslandsbanka spáir því að húsnæðisverð hækki um 5,7% á þessu og 4,9% á því næsta. Það er töluvert minna en Landsbankinn spáir, því hann gerir ráð fyrir 9,5% hækkun fasteignaverðs á þessu ári, 6,5 árið 2016 og 6,2% árið 2017. Arion banki spáir 7 til 8% hækkun á þessu ári og því næsta.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .