„Við höfum ekki fengið nein viðbrögð frá Reykjavíkurborg vegna málsins,“ segir Ásmundur Helgason, eigandi Gráa kattarins við Hverfisgötu, sem hefur gagnrýnt miklar tafir á framkvæmdum við Hverfisgötuna undanfarna mánuði. „Þá skrifaði ég sömuleiðis bréf til Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í gær og af því er sömu sögu að segja, engin viðbrögð. Ekki orð,“ segir Ásmundur í samtali við Viðskiptablaðið, en hann skoðar nú réttastöðu sína í málinu.

„Þegar jafnmiklar tafir valda svona miklu tjóni þá hlýtur borgin að vera bótaskyld. Annað er óréttlátt og ósanngjarnt,“ segir Ásmundur, sem vakti athygli á málinu fyrr í vikunni með skrifum á Facebook-síðu sinni.

„Fjórir veitingastaðir farnir á hausinn við þennan spotta Hverfisgötunnar og staðurinn okkar Ellu, Grái kötturinn, rétt lafir. Uppsafnaður taprekstur frá því í sumar eykst með hverri vikunni, með hverri vikunni sem verkið tefst.“

Framkvæmdirnar hófust 20. maí sl. og áttu að vera lokið í ágúst en nú er útlit að í stað þriggja mánað framkvæmdatíma verði þeir að minnsta kosti sex. Þá segir Ásmundur að allar upplýsingar um framkvæmdatíma hafi reynst rangar.

„Borgarstjóri sagði í ágúst að þetta myndi klárast í september. Upplýsingar frá borginni í september um að verkið myndi klárast í október reyndust líka rangar. Hvernig má það vera að verkkaupinn hefur í raun enga hugmynd um hversu langan tíma tekur að klára svona verk? Verkhlutar sem eiga að gerast í „næstu viku“, gerast þrem til fjórum vikum síðar. Allar upplýsingar um tíma hafa reynst rangar. Líka þær um hvað átti að gerast eftir hádegið í gær. Þá átti að byrja að helluleggja norðan megin - en ekkert gerðist,“ segir Ásmundur og bætir í niðurlagi færslunnar við:

„Við sem verðum fyrir tjóni á hverjum degi höfum ekki fengið neinar skýringar, sem við getum trúað á, töfunum. Við höfum hins vegar séð hve fámennur hópur vann við verkið í sumar og fjölmarga daga var hreinlega enginn að vinna í verkinu. En Grái kötturinn er enn opinn. Og allir eru velkomnir.  Það er að segja ef þið komist í gegnum grindverkavölundarhúsið.“