Engin viðskipti áttu sér stað í Kauphöllinni daginn eftir Íslandsbankaútboðið sem koma að öllu leyti heim og saman við frásögn Páls Magnússonar af ábatasömum viðskiptum kunningja síns. Hana er þó hægt að fá til að ganga upp sé horft fram hjá meintum tíma sölunnar og ef kunninginn átti milljón hluti í bankanum fyrir útboðið.

Páll benti réttilega á fyrr í dag að fullyrðing Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, um að enginn hafi getað selt daginn eftir útboðið, er röng. Vel hefði verið hægt að selja daginn eftir, en það gerði enginn á þeim tíma, því gengi og í því magni sem Páll vill meina að kunningi sinn hafi gert.

Sjálfstæðisþingmaðurinn fyrrverandi og oddviti Heimaeyjarlistans í komandi sveitastjórnarkosningum sagði á Facebook þann 9. apríl síðastliðinn sögu af kunningja sínum, sem hefði fengið boð frá vini sínum um að taka þátt í útboði Bankasýslunnar á 22,5% hlut í Íslandsbanka að kvöldi 22. mars síðastliðins.

Vinurinn hefði lýst viðskiptunum sem „snöggum snúning“ sem gæti líklega gert kunningja Páls 10 milljónum ríkari yfir nótt, sem hefði svo staðist nánast upp á krónu þegar hann hefði selt milljón hluti sem hann skráði sig fyrir í útboðinu með 10 króna hagnaði á hlut strax „við fyrsta hanagal“ morguninn eftir. Nánar tiltekið hafi hann selt á genginu 127, en dagslokagengi daginn áður hafði verið 122, og útboðsgengið 117.

Verð og magn geta gengið en tímaramminn ekki
Alls voru tæplega 1,6 milljónir hluta seldir í Íslandsbanka á um eða yfir 127 krónur á hlut í 81 viðskiptum umræddan dag, þann 23. mars, samkvæmt viðskiptayfirliti Kauphallarinnar. Fjöldi seldra hluta á því verði náði hinsvegar ekki milljón fyrr en um hádegisbil, og stærstu einstöku viðskiptin hljóðuðu upp á 481 þúsund hluti sem seldar voru á genginu 126,8 eða 61 milljón króna.

Sé viðskiptunum skipt upp eftir fjármálastofnun seljanda þrengist leitin enn frekar, en viðmælendur Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði segja óhætt að fullyrða að seljandinn í sögu Páls hefði selt í gegn um sama aðila þó um mörg viðskipti kynni að vera að ræða. Megnið af seldum bréfum á áðurnefndu verðbili komu frá Arion banka, alls tæplega 1,1 milljón hluta.

Með því að púsla saman 5 stórum sölum Arion á umræddu gengisbili er hægt að ná upp í rétt ríflega milljón hluti, sem ekki er útilokað að hafi allt verið sami söluaðili og myndi stemma við sölugengið í sögu Páls. Meirihluti þeirra viðskipta átti sér hinsvegar ekki stað fyrr en í hádeginu.

Sé tímaramma sögu Páls gefið svigrúm til hádegis er því ekki hægt að útiloka að hún standist að öðru leyti, en kunninginn hefði þá staðið undir meirihluta seldra hluta á áðurnefndu verðbili þann daginn. Bréfin sem hann seldi hefðu ennfremur ekki getað verið þau sem hann skráði sig fyrir í útboðinu, og hefði hann því þurft að eiga seldu hlutina milljón fyrir útboðið. Þess má að lokum geta að gangvirði bréfanna fór ekki yfir 125 krónur á hlut aftur það sem eftir lifði útboðsvikunnar.

Fjögur viðskipti með óhefðbundnu uppgjöri
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra komst svo að orði í Sprengisandi í gær að allir vissu að uppgjörsdagur útboðsins hefði verið á mánudegi, og því hefði enginn getað selt útboðsbréfin dagin eftir. Málið er þó ekki alveg svo einfalt.

Bréfin sem Bankasýslan seldi í útboðinu voru vissulega afhend mánudaginn 28. mars, 6 dögum eftir útboðið. Almenna reglan í Kauphallarviðskiptum er hinsvegar sú að afhending fari fram tveimur viðskiptadögum síðar, sem þýðir að bréf sem seld eru á miðvikudegi þarf að afhenda á föstudegi, og sala á fimmtudegi gengur í gegn á mánudegi.

Aðeins hefði því þurft að seinka uppgjöri um einn dag til að geta selt útboðsbréfin strax daginn eftir, og samkvæmt viðmælendum blaðsins sem til þekkja er tiltölulega lítið mál að selja skráð hlutabréf með slíkum viðbótardegi í skilmálum.

Slíks fráviks frá hinum hefðbundnu tveimur dögum til afhendingar er þó sérstaklega getið í viðskiptayfirliti Kauphallarinnar, og engin af áðurnefndum viðskiptum sem stemmt gætu við sögu Páls falla þar undir.

Fjögur viðskipti áttu sér stað daginn eftir útboðið með „óhefðbundnum uppgjörsskilmálum“ (e. non-standard settlement) eins og það er kallað, sem breyting á uppgjörstíma fellur undir. Öll voru viðskiptin stór og alls fólu þau í sér sölu hátt í 4,4 milljóna hluta fyrir 539 milljónir króna. Þau áttu sér hinsvegar stað síðdegis og á gengi á bilinu 123,2 og 124,5 krónur á hlut.

Þótt seljendur í þeim viðskiptum hafi ekki fengið sama verð og kunninginn í sögu Páls er því ekki útilokað að einhverjir þátttakendur í útboðinu hafi leyst út ágætis hagnað strax daginn eftir.