Stafræna markaðsstofan The Engine, dótturfyrirtæki Pipar\TBWA, hefur nú opnað í Kaupmannahöfn. The Engine var nýlega valið eitt af 10 bestu netmarkaðsfyrirtækjum Evrópu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu þar sem greint er frá opnuninni í dönsku höfuðborginni.

„Það styrkir talsvert stöðu The Engine að vera með skrifstofur í fleiri borgum. Nú erum við með skrifstofur í Reykjavík, Osló og Kaupmannahöfn. Samstarfsaðilar okkar í Kaupamannahöfn ákváðu að vinna undir okkar merkjum og eigum við það fyrirtæki með þeim en vinnan fer fram eftir okkar forskrift,“ segir Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar\TBWA, í fréttatilkynningu.

„Hugmyndin með samstarfinu er að The Engine verði álitlegasti kosturinn þegar skoða á markaðssetningu á samnorrænum markaði. Nú þegar eru komnir samstarfsaðilar í Svíþjóð og Finnlandi og munum við sjá til hvort stofur undir sama nafni muni opnar þar líka,“ bætir hann við.

„Mikil reynsla er í teymi fyrirtækisins í Kaupmannahöfn en stjórnarformaður The Engine Kaupmannahöfn stofnaði TBWA í Kaupmannahöfn á sínum tíma og á að baki um 40 ár í auglýsingageiranum ásamt vinnu fyrir mörg af stærstu vörumerkjum Norðurlanda á alþjóðamarkaði og stærstu vörumerki heims fyrir Norrænan markað,“ segir að lokum í fréttatilkynningunni.