Vöruskipti við útlönd hafa ekki skapað neitt nettóinnflæði gjaldeyris það sem af er ári og er það í fyrsta sinn frá hruni sem slíkt er uppi á teningnum á fyrstu sex mánuðum ársins, samkvæmt greiningu Íslandsbanka. Viðsnúningur í vöruskiptum er talsvert brattari en greiningardeildin gerði ráð fyrir en á sama tímabili í fyrra var ríflega 30 ma.kr. afgangur af vöruskiptum við útlönd.

Nokkrar ástæður eru fyrir versnandi vöruskiptajöfnuði. Má í því samhengi nefna að útflutningur sjávarafurða í magni mælt dróst talsvert saman á fyrri helmingi ársins, sérstaklega vegna lélegrar loðnuvertíðar. Þá var álverð mjög lágt framan af ári, en það hefur tekið að hækka talsvert undanfarið. Hvað innflutning varðar hefur orðið aukning í innflutningi á bifreiðum og öðrum neusluvörum.

Afgangur af vöruskiptum lítill þetta árið

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að vöruskipti á seinni fimm mánuðum ársins verði nokkuð hagstæðari en raunin hefur verið frá áramótum. Hækkandi verð á áli og sjávarafurðum hefur þar sitt að segja, auk þess sem aflaheimildir fyrir komandi fiskveiðiár voru auknar lítillega. Þó er líklegt að vöxtur innflutnings haldi áfram og því verði afgangur af vöruskiptum lítill, ef einhver, þetta árið.

Í ljósi þessa er sá mikli vöxtur sem verið hefur í ferðaþjónustu þeim mun dýrmætari, að mati greiningardeildar. Ferðaþjónustan hafi skilað meiri gjaldeyristekjum í ár en í fyrra. Gjaldeyrisinnflæðið sem hefur ríkt frá nóvember á síðasta ári er að miklu leyti komið til vegna ferðamanna og annarrar þjónustu.