Samkvæmt breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis við þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um fjármálaáætlunina er ekki gert ráð fyrir afgangi af rekstri ríkissjóðs næstu tvö árin að því er Morgunblaðið greinir frá. Ekki stefnir í að afgangur verði í ár, en svo er gert ráð fyrir lítilsháttar afgangi 2021 en eftir það mun hann aukast.

Um er að ræða mikla breytingu frá upphaflegri tillögu fjármálaráðherra þar sem gert var ráð fyrir allt að 30 milljarða afgangi næstu árin, en Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar segir að tekjur ríkissjóðs minnki um 103 milljarða vegna samdráttar í hagkerfinu.

Haft er eftir Willum Þór að ákveðið hafi verið að nota afganginn sem upphaflega átti að vera til að milda ráðstafanir vegna samdráttar í hagkerfinu. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um afhjúpar niðursveifla hagkerfisins nú galla í fjármálaáætlunargerðinni sem bent hafði verið á, og óttast greinendur nú að stefnan magni sveiflu hagkerfisins.

Stóð þingfundur fram eftir kvöldi í gær, og var stefnt að því að klára öll mál í gær önnur en fjármálaáætlun. Voru meðal annars samþykkt lög um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó, lög um stjórn veiða á makríl, sem eru viðbrögð við dómi hæstaréttar.

Auk þess voru samþykktar ályktanir um endurskoðun lögræðislaga, skipun starfshóps um starfshóps um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum og gerð aðgerðaáætlunar um matvælaöryggi og vernd búfjárstofna. Þingfundur hefst svo að nýju klukkan 10 í dag.