*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 13. nóvember 2017 12:43

Enginn afsláttur í málefnum hælisleitenda

Formaður Samfylkingarinnar segir eins manns meirihluta vinstri flokka með Flokki fólksins ekki of tæpan.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar segist ekki hafa áhyggjur af því að möguleg vinstristjórn án Framsóknar, en með Flokki fólksins í staðinn, verði of tæp.

Slík stjórn hefði einungis 32 þingmenn að baki sér, eða eins manns meirihluta, líkt og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem felldi ríkisstjórnina og féll í kjölfarið af þingi. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um helgina hittust þau Logi og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins um helgina. 

Logi hafði áður sagt stefnu Flokks fólksins í málefnum flóttamanna og hælisleitenda glannalega og forsenda slíks samstarfs vera að flokkurinn hyrfi frá stefnu sinni í þeim málefnum að því er fram kemur á mbl, en Inga Sæland hafði til að mynda hrósað Sigríði Andersen dómsmálaráðherra fyrir reglugerðarbreytingar sem flýttu meðferð tilhæfulausra umsókna um hæli niður í þrjá sólarhringa.

Logi segir hins vegar Samfylkingu og Flokk fólksins eiga samleið þegar kemur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu en eftir fundinn þar sem hann segir útlendingamál hafa borið á góma segist hann nú hafa sannfærst um að flokkarnir væru sammála um margt í þeim málaflokki.

„En við munum ekki gefa neinn afslátt af okkar stefnu þar,“ segir Logi og gagnrýnir um leið stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum hælisleitenda, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur áðurnefnd ákvörðun dómsmálaráðherra náð að draga umtalsvert úr umsóknum um hæli hér á landi „Mér hefur nú sýnst vera nokkuð frjálst skotleyfi í Sjálfstæðisflokknum í þessum málum.“