„Landsvirkjun er mjög mikils virði og enginn fær að kaupa hluti í fyrirtækinu nema á fullu verði. Það verður örugglega hátt verð,“ segir Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi í Valhöll um helgina að skoða eigi möguleika á því að selja allt að þriðjungshlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna. Að mati Bjarna er Landsvirkjun metin á 300 milljarða króna og muni því um 100 milljarðar króna skila sér í ríkissjóð. Nýta megi féð til að grynnka á skuldum hins opinbera.

Helgi tók undir orð Bjarna í samtali við vb.is á sunnudag. Hann benti á að Lífeyrissjóður verslunarmanna hafi í mörg ár talið áhugavert að kaupa hlut í Landsvirkjun. Stjórnir lífeyrissjóðanna hafa ekki sest niður og rætt málið, að hans sögn.

Sala gæti bætt lánshæfismat Landsvirkjunar

Helgi segir í samtali við vb.is eigið fé Landsvirkjunar gífurlega mikið og fjármunamyndun þess sömuleiðis. Af þeim sökum megi gera ráð fyrir því að hlutabréf ríkisins í Landsvirkjun verði dýr.

Helgi bætir við að yrði niðurstaðan sú að ríkið selji meira en þann þriðjung sem formaður Sjálfstæðisflokksins nefni, t.d. 50%, þá megi nýta hluta af verðinu til að auka eigið fé Landsvirkjunar um nokkra tugi milljarða sem tryggi fyrirtækinu framkvæmdafé til einhvers tíma og styrki eiginfjárstöðu þess enn frekar. Það ætti að leiða til þess að lánshæfismat Landsvirkjunar yrði betra en nú er. Áhrifin gætu því orðið jákvæð með ýmsum hætti.