Fjármálaeftirlitið (FME) hefur lokið athugun sinni á verklagi bankans og viðmiðum sem lögðu voru til grundvallar því hvort samþykkja ætti fjárhagslega endurskipulagningu skuldara eða hvort fara ætti fram á gjaldþrot viðkomandi. Sérstaklega var farið í málið og óskað eftir upplýsingum um gjaldþrot B.M. Vallár.

B.M. Vallá var úrskurðað gjaldþrota í maí árið 2010 eftir að viðræður um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins sigldu í strand. Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður B.M. Vallár og aðaleigandi fyrirtækisins, var allt annað en sáttur með niðurstöðuna. Á blaðamannafundi sem hann hélt í ágúst á þessu ári greindi hann frá því að sagði hann að með úrskurði Úrskurðanefndar um upplýsingamál hafi hann fengið að vita að fyrirtækið hafi verið á „aftökulista“ Arion banka. Hann mátti hins vegar ekki vita hvernig „aftakan“ færi fram. Hann sakaði Arion banka um að hafa mismunað skuldunautum í uppgjöri við bankann eftir efnahagshrunið og vísaði til þess að erlend lán sem báru B.M. Vallá ofurliði hafi verið ólögmæt.

Víglundur kærði í fyrra til Úrskurðanefndar um upplýsingamál þá ákvörðun Fjármálaráðuneytisins að synja beiðni hans um aðgang að „samningi um vörslu og skilyrtan virðisrétt“ og að hluthafasamkomulagi milli fjármálaráðuneytisins og Skilanefndar Kaupþings og Arion banka. Víglundur hefur í gegnum tíðina krafist frekari gagna en hann telur að úrskurðanefnd hafi ekki fengið öll gögn málsins frá ráðuneytinu. Hann sagði m.a. á blaðamannafundinum í lok sumars þau skjöl vera lista yfir þær eignir sem „vinna skyldi á“. Á þeim lista hafi B.M. Vallá verið meðal annarra fyrirtækja.

Jón Ásgeir vildi sjá aftökulistann

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs Group, tók undir með Víglundi í blaðagrein í september síðastliðnum og taldi hann  fullvíst að Arion banki hafi útbúið sérstakan lista yfir ákveðin fyrirtæki sem taka átti af eigendum sínum í kjölfar hrunsins. Hann taldi sjálfur að nafn hans og fyrirtækja sem hann tengdist hafa verið á listanum.

„Frásögn Víglundar var kunnugleg. Það voru einmitt þessi orð sem ég heyrði haustið 2010 frá fyrrum starfsmanni Arion banka þegar hann hringdi í mig og tilkynnti mér að Arion banki ætlaði að taka Haga hf. af fjölskyldu minni. Félagið sem við höfðum byggt upp í rúm 20 ár og hófst með opnun Bónuss árið 1989. Ég spurði þennan starfsmann hvers vegna. Honum varð fátt um svör. Hann viðurkenndi að engin rök stæðu fyrir því að aðrir myndu reka Bónus betur en fjölskyldan sem stofnaði fyrirtækið. Ófarir okkar væru tengdar fjárfestingum í ólíkum geira þar sem hlutabréf í Högum höfðu verið sett að veði. Eftir snörp orðaskipti við starfsmann Arion banka viðurkenndi hann og sagði þjóstuglega: „Þú ert á listanum!" „Hvaða lista?" spurði ég. „Nú listanum um aðila sem á að kála.“

Skorar hann á Arion banka að birta umræddan lista og opinbera hver hafi látið búa hann til.

„Það eru of margir sem vita að hann er til – það er ekki hægt að þegja lengur. Hvaða listi var svo merkilegur að það var óhætt að taka eignir af mönnum sem kunnu með þær að fara og höfðu byggt upp og í ofanálag selja þær eignir á lægra verði en bankinn gat selt þær á?“

Ekkert rangt við meðferðina á B.M. Vallá

Í tilkynningu frá FME í dag segir að óskað hafi verið eftir upplýsingum og sjónarmiðum Arion banka vegna málsins. Meðal þess sem óskað var eftir voru upplýsingar um verklag bankans og viðmið sem lögð voru til grundvallar við mat á því hvort samþykkja ætti endurskipulagningu fjárhags skuldara eða hvort fara ætti fram á gjaldþrotaskipti. Bæði var óskað eftir almennum upplýsingum um framangreint og sérstaklega í tengslum við B. M. Vallá hf.

FME segir:

„Svör Arion banka hf. við fyrirspurnum FME voru ítarleg og studd viðeigandi gögnum. Kom þar m.a. fram lýsing á tilraunum til endurskipulagningar fjárhags B. M. Vallár hf. ásamt umfjöllun um aðdraganda gjaldþrots þess þegar tilraunir til endurskipulagningar höfðu ekki borið tilætlaðan árangur. Arion banki hf. hafnaði því að samningur bankans við „gamla Kaupþing“ um skilyrt virðisréttindi hafi innihaldið lista yfir félög sem fyrirfram hafi verið ákveðið að gera gjaldþrota og rökstuddi bankinn þá afstöðu. Að lokinni yfirferð þeirra gagna sem bárust frá Arion banka hf. var það niðurstaða FME að ekki væri tilefni til athugasemda við starfshætti bankans í tengslum við tilraunir til endurskipulagningar og síðar gjaldþrot B. M. Vallár hf. Þá telur FME að ekkert í þeim gögnum sem eftirlitið yfirfór við athugunina renni stoðum undir fullyrðingar þess efnis að áðurnefndur samningur um skilyrt virðisréttindi hafi innihaldið lista yfir fyrirtæki sem fyrirfram hafi verið ákveðið að krefjast gjaldþrotaskipta á.“

Tilkynning FME