„Mér hafa þótt þessar vikur dálítið fróðlegar,“ segir Kristján Þór Júlíusson aðspurður um fyrstu verk ríkisstjórnarinnar. „Eftir sumarþingið er allt tal um þroskaða samræðu, eins og samræðustjórnmál eru kölluð, hjóm eitt í mínum huga. Bara endurtekið efni frá fyrri árum og á margan hátt tuð manna sem reyna að búa til ágreining í stað þess að virða kjósendur og niðurstöðu kosninganna í lok apríl. Þetta var aðeins breytilegt eftir þingflokkum en bragurinn í þinginu var með þeim hætti að þeir stjórnmálaflokkar sem kjósendur höfnuðu í vor, létu eins og þeir væru ekki búnir að viðurkenna niðurstöðuna – og vildu ekki horfast í augu við dóm kjósenda. Ég vonast eftir breytingum því þetta er ekki að skila okkur neinu. Og þegar ég segi „okkur“ þá á ég ekki við okkur stjórnmálamenn heldur okkur Íslendinga sem þjóð. Við erum búin að gera miklu meira en nóg af því að rífast í fimm ár í stað þess að nýta fjölmörg tækifæri til að sækja fram. Því fleiri sem leggjast á árar tækifæranna – hvar svo sem þeir standa í pólitík – þeim mun betra fyrir alla,“ segir Kristján Þór og nefnir veiðigjöldin sem dæmi um umræðu sem var afvegaleidd.

„Ríkisstjórnin hefur á sínum fyrstu vikum í störfum eðlilega sætt gagnrýni og – að sumu leyti hefur hún átt það skilið fyrir það hvernig við komum fram með mál. En gagnrýnin hefur í mörgu ekki verið réttmæt eða eðlileg enda runnin undan rifjum pólitískra klækjarefa. Umræðan um veiðigjaldið snerist til dæmis upp í farsa. Þegar upp er staðið snýst ágreiningurinn aðeins um hversu hátt gjaldið eigi að vera, ekki um það hvort leggja eigi gjald á fyrirtæki eða einstaklinga sem nýta sameiginlegar auðlindir.“

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins má finna ítarlegt viðtal við Kristján Þór. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.