Gunnar Þ. Gíslason stjórnarformaður Sundagarða hf. segist undrandi á því að enginn hafi sýnt því áhuga að reka sláturhúsið sem stendur í Brákarey.

Þetta kemur fram á vef Skessuhorns en eins og komið hefur fram í fréttum Skessuhorns ákváðu nýir eigendur Borgarnes kjötvara að reka ekki sláturhúsið. Gunnar sagði í frétt á sínum tíma að Sundagarðar hf. óskuðu eftir rekstraraðila að sláturhúsinu.

Gunnar segir að þeir hafi talið bráðnauðsynlegt að hafa sláturhús í landbúnaðarhéraði þótt þeir vilji ekki reka það sjálfir.

„Ég hefði kannski talið að bændur myndu taka sig saman eða jafnvel samtök eins og búnaðarsamtök en það hefur sem sagt enginn haft samband. En málið er enn opið, sláturhúsið er bara þarna, tilbúið til notkunar.“