Í dag var samningafundur haldinn í kjaradeildu ríkisins og BHM hjá ríkissáttasemjara. Páll Halldórsson formaður BHM segir að enginn árangur hafi orðið á fundinum og að ríkið sé ekkert að vinna að lausn málsins. Það bjóði áfram 3,5 prósenta launahækkun, en það sé óralangt frá kröfum BHM. Þessu greinir RÚV frá.

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, hefur sagt að BHM vilji á þriggja ára tímabili hækka lægstu laun í 400 þúsund krónur, það sé 48 prósenta hækkun.

Páll gagnrýnir stjórnvöld fyrir að leggja sig lítið fram við að leysa deiluna. Hann segir í samtali við RÚV að staðan sé grafalvarleg. Það sé búið að vera verkfall á nokkrum stofnunum og það stefni í harðari aðgerðir og ríkið sé ekkert að vinna að lausn í þessu máli. Næsti samningafundur sé ekki fyrr en seinni partinn á mánudag. Þá verði byrjuð verkföll hjá Fjársýslu ríkisins og hjá Matvælastofnun.