Nú hafa tveir fyrstu ræðumenn ráðstefnunnar „Konur og réttlæti“ lokið máli sínu. Fyrst tók til máls Maud de Boer Buquicchio, annar framkvæmdastjóri Evrópuráðsins.

Maude greip til þess að líkja ríkinu við fótboltalið og benti á þá staðreynd að ekki sé hægt að ná árangri ef maður hefur hálft liðið á varamannabekknum. Hún sagðist vilja sjá kynjakvóta setta á víðar, a.m.k. þegar kæmi að því að skipa lista stjórnmálaflokka, þar sem of auðvelt er víða um heim að setja konur á lista eingöngu sem tákn um jafnréttisstefnu. Þær verði of oft valdalausar í ríkisstjórn eftir kosningar.

Maude lagði í máli sínu áherslu á að mikilvægt sé að konur hafi nægt sjálfstraust eigi árangur að nást í jafnréttisbaráttu. Hún sagði konur ákveðnar að útrýma ójafnræði kynjanna og að þær myndu fá karlmenn í lið með sér í þeirri baráttu, ekki vegna þess að þær þurfi á hjálp að halda heldur vegna þess að það er sanngjarnt og sjálfsagt.

Það sama gildir um jafnréttisbrot og önnur brot

Annar ræðumaður dagsins var Judith Resnik, prófessor við lagadeild Yale háskólans. Judith sagði að þó að jafnréttisbaráttan hefði náð miklum árangri þá væri hún ekki nærri því búin, og að við getum ekki gefið okkur að málin þróist í rétta átt fyrirhafnarlaust.

Í máli sínu fjallaði Judith um mikilvægi dómstóla sem leið til að ná fram kvenréttindum. Hún benti á að þó svo að konur hafi í dag jafnt aðgengi og karlar að dómstólum í Bandaríkjunum, og að þar njóti þær jafnréttis, þá sé vandamál í dag að úrskurðað er um mikið af réttindum utan dómstóla, innan stjórnsýslunnar.

„Dómþing skulu háð í heyranda hljóði svo að þar er gott að jafnréttisbarátta fari fram þar, fyrir augum allra sem vilja sjá. Nú eru hins vegar æ fleiri mál sem fara fram innan stjórnsýslunnar. Þar eru ekki alltaf opin þinghöld auk þess sem mál þar eru ekki alltaf auglýst fyrir fram, svo að fólk veit ekki hvenær það á að mæta til að fylgjast með,“ sagði Judith.

Judith tók einnig fram möguleiki á hópmálsókn geti verið mikilvægur. Oft sé brotið á rétti fólks en of litlir hagsmunir í húfi til að það taki því að fara út í dýr málaferli. Samningar og lög sem takmarka rétt manna til hópmálsókna geri þeim sem þessi brot fremja auðveldara fyrir og hættuminna að brjóta af sér. Þetta á við um öll brot, þar með talin jafnréttisbrot. Nú taka við pallborðsumræður undir stjórn Valgerðar Sverrisdóttur undir fyrirsögninni „Kvenorkan í atvinnulífinu.“