Fríhöfnin ehf., sem er alfarið í eigu Isavia ohf. og rekur verslanir með tollfrjálsan varning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hagnaðist um 282 milljónir króna árið 2019 og ríflega tvöfaldaðist hagnaðurinn frá fyrra ári er hann nam 126 milljónum.

Rekstrartekjur félagsins námu tæplega 13 milljörðum króna en árið áður námu rekstrartekjurnar 13,2 milljörðum. Eignir Fríhafnarinnar námu ríflega 3 milljörðum króna á lokadegi síðasta árs og eigið fé nam 1,2 milljörðum.

Til stóð að greiða út 200 milljónir króna arð til Isavia vegna síðasta rekstrarárs á þessu ári en vegna COVID-19 lagði stjórn félagsins til á aðalfundi að hagnaður ársins yrði fluttur á óráðstafað eigið fé. Var sú tilhögun samþykkt á aðalfundi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er stjórnarformaður Fríhafnarinnar.