Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur Orkuveita Reykjavíkur selt eignir fyrir 186 milljónir króna, en áætlanir gerðu ráð fyrir eignasölu að fjárhæð 1,5 milljörðum króna. Kom þetta fram á uppgjörsfundi Orkuveitunnar á föstudaginn. Þar kom jafnframt fram að samkvæmt áætlunum átti að selja eignir fyrir 2,5 milljarða króna á tímabilinu frá 2011 fram á þriðja fjórðung þessa árs, en aðeins hafa verið seldar eignir fyrir 1,3 milljarða króna.

Alls er gert ráð fyrir því að fram til ársins 2016 verði seldar eignir fyrir 10 milljarða króna. „Það er enginn bilbugur í okkur vegna eignasölunnar,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, á fundinum.

Ætlunin var m.a. að selja Perluna og voru tilboð opnuð í október í fyrra. Hæsta tilboðið nam tæpum 1,7 milljörðum króna, en tilboðsgjafinn dró tilboðið til baka þar sem ekki var hægt að aflétta fyrirvörum um breytingar á skipulagi. Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur í kjölfarið falið borgarstjóra að ganga til samninga við OR um kaup á eigninni.