Vangaveltur um tæknilegar útfærslur miðstýringar í gjaldmiðlamálum og akademískum spurningum á borð við hvort krónan hafi reynst vel eða illa, hvort vextir yrðu hærri eða lægri með annarri mynt, hvort krónan eigi að vera föst eða fljótandi og þar fram eftir götunum byggjast í grunninn á því að það sé stjórnmálamanna að ákveða hvort samlandar þeirra njóti viðskiptafrelsis, að mati Lýðs Þór Þorgeirssonar, sjóðsstjóra hjá GAMMA.

Lýður Þór Þorgeirsson sjóðsstjóri nýs skuldabréfasjóðs hjá GAMMA.
Lýður Þór Þorgeirsson sjóðsstjóri nýs skuldabréfasjóðs hjá GAMMA.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið segir Lýður að alltof margir sem láta sig þessi mikilvægu mál varða virðist horfa blákalt framhjá aðalatriði málsins sem sé að engum er  sé stætt á því að ráðskast með hvaða gjaldmiðil eða andlag aðrir nota í sínum viðskiptum.

„Erfitt er að sjá hvernig við Íslendingar eigum að geta brotist úr höftum og sótt okkur þann sjálfsagða rétt að eiga frjáls viðskipti í öðrum myntum án þess að stjórnvöld afsali sér ægivaldi sínu í eitt skipti fyrir öll með því að skipta krónunni út fyrir gjaldeyri sem gjaldgengur er erlendis. Ótækt er að slíkir kostir séu slegnir hugsunarlaust út af borðinu þó þeir kunni í fyrstu að virðast framandi þeim sem alist hafa upp við krónuna.“

Hann segir að enginn megi þó standa í þeirri trú að öll vandamál leysist við það að krónunni verði lagt og íbúum landsins verði veitt myntfrelsi. Eftir sem áður muni á heildina litið kaupmáttur flestra landsmanna sveiflast með afkomu frekar einhæfra útflutningsatvinnuvega.

„Án íslenskrar ríkismyntar verður jafnvel enn mikilvægara en áður að haga opinberum fjármálum á skikkanlegan hátt og ekki verður lengur tækt að lofa einkabönkum endalausri lánafyrirgreiðslu. Öllum þeim sem annt er um velgengni þjóðarinnar ætti að þykja það hið besta mál.“