„Að losna undan kvöð sem starfsmaður tekur á sig án þess að fá verðmæti í staðinn getur varla talist til gæða og þ.a.l. skattskyldra hlunninda," segja Páll Jóhannesson og Andra Gunnarsson í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu.

Tilefni skrifanna var nýlegur dómur Hæstaréttar þar sem fjallað er um skattlagningu söluréttar fyrrverandi bankastarfsmanns og fordæmisgildi hans.

Páll Jóhannesson og Andri Gunnarsson
Páll Jóhannesson og Andri Gunnarsson
© vb.is (vb.is)
Umræddur dómur Hæstaréttar fjallaði um það hvort starfsmaður gæti talist hafa notið skattskyldra hlunninda frá vinnuveitanda sínum vegna samninga milli starfsmannsins og vinnuveitandans sem vörðuðu kaup og sölu hlutabréfa í hinum síðarnefnda. Við mat á því hvort skattskyld hlunnindi séu til staðar er lykilatriði hvort starfsmaður hafi notið einhvers konar gæða sem meta megi til fjár, segja þeir Páll og Andri í greininni

Hæstiréttur svarar þeirri spurningu ekki með afgerandi hætti hvort þau gæði sem fólust í að veita starfsmanni endurgjaldslaust afleiðu (söluréttinn) sem fól í sér tryggingu fyrir tapi af hlutabréfunum geti talist til skattskyldra hlunninda. Skýrt kemur hins vegar fram að starfsmaðurinn hafi ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af söluréttinum enda var hann aldrei nýttur.

Þeir segja að seinna atriðið sé nokkuð snúið þegar litið er til þess að grundvallaratriði er hvort starfsmaðurinn hefur fengið í sinn hlut skattskyld hlunnindi, þ.e. gæði sem meta má til fjár. Að losna undan kvöð sem starfsmaður tekur á sig án þess að fá verðmæti í staðinn geti varla talist til gæða og þ.a.l. skattskyldra hlunninda.

Ekki er hægt að horfa á þetta atriði sjálfstætt án þess að heildarsamhengi samninganna sé tekið með í reikninginn, þ.m.t. þá forsendu Hæstaréttar að starfsmaðurinn eignaðist hlutabréfin strax við kaupsamning. Starfsmaðurinn hlýtur að hafa tekið á sig kvöð um kauprétt vinnuveitanda síns af því að hann fékk sölurétt á móti. Skattlagning niðurfellingar á slíkri kvöð væri andstæð grundvallaratriðum í skattheimtu enda þyrftu menn þá að fara afar varlega í að veita loforð. Líkja mætti þessari aðstöðu við að maður sem hefði gengist í ábyrgð fyrir láni, án þess að fá í hendur nein verðmæti, þyrfti að greiða tekjuskatt af niðurfellingu ábyrgðarinnar. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að ef vinnuveitandinn hefði ekki lagt sérstaka kvöð á hendur starfsmanninum þá væri skv. niðurstöðu Hæstaréttar ekki fyrir hendi neitt tilefni til skattlagningar enda sölurétturinn ekki nýttur.

Að mati þeirra Páls og Andra getur því ekki komið til skattlagningar á þeim grundvelli að starfsmaður hafi verið leystur undan sölukvöð (kauprétti vinnuveitanda) líkt og Hæstiréttur kann að gefa til kynna.

Lesa má grein þeirra í heild undir skoðun á vb.is .