Landsframleiðslan á 1. ársfjórðungi dróst saman um 0,1% borið saman við 1. ársfjórðung 2013. Á sama tíma jukust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, um 2,1%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Einkaneysla jókst um 3,9%, samneysla um 2% og fjárfesting um 17,6%. Útflutningur jókst um 6,2% og innflutningur nokkru meira, eða um 11,9%. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla dróst saman um 0,7% milli 4. ársfjórðungs 2013 og 1. ársfjórðungs 2014.

Þessar tölur koma verulega á óvart og setja strik í reikninginn hjá Seðlabanka Íslands og öðrum greiningaraðilum sem vinna Þjóðhagspár. Í nýlegum Peningamálum Seðlabankans kom til dæmis fram að hagvöxtur hafi verið einkar kröftugur á seinni hluta síðasta árs eða um 4,1% að meðaltali og að gert væri ráð fyrir svipuðum vexti á fyrri hluta þessa árs. Landsbankinn spáð á dögunum 3,2% vexti fyrir árið í heild.