*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Erlent 3. apríl 2012 13:36

Enginn á jafn marga Porsche-bíla og Grikkir

Grískur háskólaprófessor segir marga klóra sér í hausnum yfir því hversu margir Porsche Cayenne eru á Grikklandi.

Ritstjórn

Fleiri Porsche Cayenne-sportjeppar eru skráðir á Grikklandi en þeir landsmenn sem voru með 50 þúsund evrur eða meira í laun í fyrra. Fimmtíu þúsund evrur jafngilda 8,4 milljónum króna, 700 þúsund króna mánaðarlaunum. Þá eru hvergi í veröldinni jafn margir Porsche-bílar í heiminum á hver íbúa og í grísku borginni Larisa á Grikklandi. Þeir eru meira að segja hlutfallslega færri í New York og í London. Íbúar Larissa eru um 250 þúsund talsins.

Þessi mikla Porsche-bílaeign Grikkja sætir undrun, ekki síst fyrir þær sakir að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lánardrottnar Grikkja samþykktur fyrir að verða mánuði að fella niður stóran hluta af skuldum landsins og veita stjórnvöldum 130 milljarða evra lán til að standa við skuldbindingar sínar. Þá hafa stjórnvöld skorið miskunarlaust niður ríkisútgjöld, sagt upp ríkisstarfsmönnum og gert landsmönnum að herða sultarólina. Gert er ráð fyrir að efnahagsþrengingar Grikkja muni skila því að hagkerfi landsins dragist saman um 5% á þessu ári.

Herakles Polemarchakis, prófessor við hagfræðideild Warwick-háskóla í Bretlandi og efnahagsráðgjafi gríska forsætisráðuneytisins á árum áður, hefur tekið saman upplýsingar um Porsche-bílaeignina. Hann sagði í samtali við breska dagblaðið Telegraph á dögunum framleiðendur Porsche í Stuttgart í Þýskalandi klóra sér í hausnum yfir þessu. Hann telji sjálfur  bílaeign landsmanna geta verið vísbendingu um að skattsvik séu nokkuð almenn á Grikklandi.

Porsche Cayenne lagt við hús. Eins og sjá má á skiltinu var myndin tekin í Þýskalandi en ekki á Grikklandi.