Heildarfjöldi skráðra ökutækja á Íslandi í árslok 2016 var 344.664. Þannig voru fleiri en eitt ökutæki skráð á hvern íbúa að meðaltali á síðasta ári. Þetta kemur fram í Árbók bílgreina 2017, sem gefin er út af Rannsóknarsetri verslunarinnar og Bílgreinasambandinu.

Þar kemur meðal annars fram velta í sölu nýrra bíla nam 121 milljarði 2016.

Fjölgun ökutækja frá fyrra ári var um 6% og hefur undanfarin ár verið mun hraðari en fjölgun íbúa á sama tíma. Samkvæmt flokkun Samgöngustofu voru tveir þriðju allra ökutækja drifnir rmeð bensíni.

Gráir og hvítir bílar vinsælastir

Á árinu 2016 voru 69% allra nýskráðra bíla annað hvort gráir eða hvítir á litinn. Hins vegar var enginn nýskráður bíll bleikur á árinu, né árið áður.

„Af þeim 20.934 bílum sem nýskráðir voru á árinu, voru 8.356 gráir og 6.070 voru hvítir. Grái liturinn hefur lengi verið langvinsælasti bílaliturinn meðal Íslendinga. Því verður ekki sagt að landsmenn séu litaglaðir þegar kemur að vali á heimilisbílnum. Vissulega kemur rauður litur í þriðja sæti lista yfir bílaliti en í því fjórða eru svartir bílar. Fæstir bílar eru gulir og engir nýskráðir bílar á síðasta áru voru bleikir eins og áður segir,“ segir í Árbókinni.

Aldrei fleiri nýjar fólksbifreiðar

Aldrei hafa fleiri nýir fólksbílar verið skráðir á Íslandi á einu ári en 2016. Heildarfjöldi nýrra skráðra bifreiða var 20.735 á árinu, sem er 33% aukning frá árinu áður.

Nýskráðir fólksbílar á árinu voru 18,442 og nýir atvinnubílar voru 2.293. Auk nýrra atvinnubíla var flutt in talsvert af notuðum bílum. Hlutfallslega var meiri aukning í fjölda nýskráðra atvinnubíla en fólksbíla. Þannig jókst fjöldi atvinnubíla um 47% frá árinu áður en 32% fjölgun varð í nýjum fólksbílum.

Yngri bílar

Meðaldur fólksbifreiða á skrá í árslok 2016 var 12,5 ár og meðalaldur annarra bifreiða var 13,6 ár. Árið áður var meðalaldur fólksbíla 12,7 ár og ekki mikil breyting milli ára.

„Heildarbílafloti í landinu eykst hratt með innflutningi nýrra bíla og því er eðlilega mest aukning sé í yngsta flokki bíla, þ.e. þeirra sem eru á bilinu 0 – 5 ára. Fjöldi bíla í þessum aldursflokki bíla jókst um þriðjung (33%) í árslok 2016 frá sama tíma árið áður. Sem dæmi um aukningu í fjölda bíla á aldursbilinu 0 – 5 ára má nefna að árið 2013 voru 27.128 bifreiðar skráðar í þann flokk en árið 2016 voru þær orðnar 62.471,“ segir í Árbókinni.