Það nýjasta í heimi tölvutækninnar er stóll sem heitir Emperor. Þetta er þó enginn venjulegur stóll, heldur blanda af list og tækni eins og kanadíski framleiðandinn Novelquest orðar það.

Gripurinn er þó ekki ókeypis því hann mun kosta um 40.000 Kanadadollara eða um 4,2 milljónir króna.

Stóllinn er með innbyggðri PC eða Mac tölvu og í honum getur notandinn sannarlega verið í sínum eigin heimi. Hann er þar með þrískiptan 19 tommu bogaskjá fyrir framan sig, stjórnstöð, stillanlegt sæti og öllum mögulegum þægindum. Stólnum er hægt að snúa á gólfi með mótor í 360°, þá er hægt að halla stólnum með vökvatjakk í þá stöðu sem óskað er.

Hægt er að velja um margvíslega lýsingu, loftkælingu og í stólnum er mjög fullkomið “5,1 surround” hljóðkerfi með Bose hátölurum og “subwoofer”, vefmyndavél, hljóðnemi, kortalesari (Multi Card) og tengi fyrir USB, eSATA og FireWire. Að sjálfsögðu er líka í stólnum tengi eða “dock” fyrir iPod og iPhone sem og sjónvarpsinntak.

Þá má heldur ekki gleyma því að notandinn getur verið óháður umhverfi sínu hvað orku varðar, því stóllinn er búinn innbyggðri orkustöð með hlaðanlegum rafhlöðum.

Sennilega hefði þessi gripur smellhitt á íslenska markaðinn 2007, en kannski eiga samt einhverjir ennþá lausa aura í svona lúxus.

Nánari upplýsingar um stólinn má finna á vefsíðunni http://www.novelquest.com/emperor_specs.html .