Kröfuhafar Existu hafa ekkert fundað síðan hluti þeirra gekk út af fundi fyrir um tveimur vikum þegar skilanefnd Kaupþings lagði skyndilega fram nýja kröfu upp á 580 milljónir evra, um 100 milljarða króna.

Til stóð að kröfuhafarnir myndu funda í tvo daga til að fara yfir nauðasamning Existu sem liggur á borðinu. Eftir að krafan var lögð fram gengu margir kröfuhafanna, sérstaklega fulltrúar erlendra banka, af fundi í fússi.

Þó hafa átt sér stað óformlegar samræður milli manna þar sem reynt er að miðla málum. Heimildir Viðskiptablaðsins herma þó að raunveruleg hætta sé á því að Exista verði sett í þrot og öll endurskipulagningaráform verði lögð til hliðar.

Það myndi þýða að stór hluti kröfuhafanna sem eiga óverðtryggðar kröfur, m.a. lífeyrissjóðir, myndu líklegast tapa þeim að mestu leyti, enda eignir einungis brotabrot af skuldum félagsins.