Engir almannahagsmunir krefjast þess að upplýst verði um einstaka aðila sem viðskipti eiga við Seðlabankann. Þvert á móti gæti það torveldað viðskipti Seðlabankans í framtíðinni sem stuðla eiga að almannahagsmunum, að sögn Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

Eins og greint var frá í netútgáfu Viðskiptablaðsins í kjölfar fundar með blaða- og fréttamönnum og sérfræðingum í Seðlabankanum í morgun þar sem Már og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, ræddu um rök fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar, var Már spuður að því hvort uppýst yrði um það hver hefði selt Seðlabankanum ríkisskuldabréf í skiptum fyrir gjaldeyri í lok síðasta árs.

Viðskiptablaðið hefur áður vakið athygli á viðskiptunum. Greining Íslandsbanka sagði í tengslum við þau um síðustu mánaðamót að viðskiptin við huldumanninn svokallaða hafi verið sérkennileg en ógjörningur hafi reynst að fá upplýsingar um viðskiptin.

Eftirlitsaðilar með allar upplýsingar

Seðlabankinn hefur sent Viðskiptablaðinu þær upplýsingar að sömu reglur og viðmið gildi um þau útboð sem fram hafa farið og þau sem Greining Íslandsbanka hafi fjallað um. Nöfn einstakra aðila sem þátt taki í útboðum hafi aldrei verið birt og verði slíkt ekki gert. Hins vegar fái eftirlitsaðilar með Seðlabankanum allar upplýsingar um þessi mál, s.s. ríkisendurskoðandi og bankaráð. Þannig væru leikreglurnar og þeim verði fylgt.