„Enginn sem starfar á ritstjórninni lítur á þetta sem fjölmiðla hans,“ segir Freyr Einarsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Hann sat fyrir svörum í morgunútvarpi Rásar 2 um grein sem Magnús Halldórsson , viðskiptaritstjóri miðlanna, skrifaði á vef Vísis í gærkvöldi. Í greininni sagði Magnús að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi reynt að þrýsta á blaðamenn og fréttamenn 365 miðla með kvörtunum til stjórnar fyrirtækisins. Hann gagnrýndi m.a. stöðu Jóns Ásgeirs sem ráðgjafi hjá 365 miðlum á sama tíma og hann tengist fjölmörgum dómsmálum. Það komi niður á trúverðugleika þeirra blaða- og fréttamanna sem vinni hjá fyrirtækinu. Jón Ásgeir er eiginmaður Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda og stjórnarformanns 365 miðla.

Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, sagði sömuleiðis í samtali við Bylgjuna í morgun að Jón Ásgeir hafi kvartað yfir fréttaskrifum blaðsins og reynt að hafa áhrif á þau.

Nýtur engrar sérstakrar stöðu

Freyr sagði Jón Ásger lúta sömu lögmálum og aðrir sem fjölmiðlar 365 miðla fjalli um. Hann hafi hins vegar aldrei skipt sér af fréttum. Freyr taldi það hins vegar eðlilegt að Jón Ásgeir geri athugasemdir við fréttaflutning af málum sem tengist honum. Það geri fleiri. Jón Ásgeir njóti hins vegar engrar sérstakrar stöðu hjá 365 miðlum.

„Við höfum fjallað um hans mál eins og allir aðrir miðlar í landinu. Fáir miðlar í landinu hafa skrifað jafn margar og ítarlegar fréttir sem beinast að honum,“ sagði Freyr en bendir að Jón Ásgeir hafi kvartað við stjórn fyrirtækisins. Það sé ekki rétt ferli enda hafi stjórnin ekkert með blaða- og fréttamenn 365 miðla að gera rétt eins og þeir geti ekki haft áhrif á stjórn fyrirtækisins. Réttara hefði verið hjá Jóni Ásgeiri að hafa samband beint við ritstjóra miðlanna.

„VIð blaðamenn stöndum í lappirnar gagnvart öllum þeim sem reyna að beita okkur þrýstingi. Við eigum einn húsbónda sem eru lesendur,“ segir hann.