Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood, segir að erfitt verði að finna markaði í stað Rússlands láti Rússar verða af því að setja viðskiptaþvinganir á Ísland. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu .

„Á öllum hefðbundnum mörkuðum eru aðrar þjóðir fyrir á fleti, sérstaklega Norðmenn og Evrópusambandið, þannig að það eru allir þekktir markaðir mettir og ekki um auðugan garð að gresja. Þetta verður mjög erfitt og verð á makríl mun sennilega falla,“ segir Teitur í samtali við Morgunblaðið.

Verð á makríl hefur þegar fallið um 35 til 40% og loki Rússar á Ísland er hugsanlegt að verðið lækki enn meira. Um 85% þess makríls sem fluttur hefur verið frá Íslandi síðustu ár hefur farið til Rússlands og Nígeríu, og segir Teitur að ef svo færi að markaðir í Nígeríu myndu ekki opnast til viðbótar við viðskiptaþvinganir frá Rússlandi yrði slík staða hrein hörmung fyrir íslenskan uppsjávariðnað.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, tekur í sama streng og segir við Morgunblaðið að viðskiptaþvinganir myndu hafa mjög alvarlegar afleiðingar. „Það er enginn markaður til skemmri tíma litið sem kemur í staðinn fyrir Rússland,“ segir hann.