Jón Ásgeir Jóhannesson, sem rak um árabil 365 miðla með eiginkonu sinni Ingibjörgu Pálmadóttur, segir að leitun sé að eins miklu ójafnvægi í samkeppni á milli ríkisfjölmiðils og frjálsra fjölmiðla líkt og á Íslandi. Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi sé algjörlega óæskilegt.

„Barátta frjálsu fjölmiðlanna á Íslandi gagnvart ríkisfjölmiðlinum RÚV er aðdáunarverð. Að þessi fyrirtæki hafi komist í gegnum þetta. Ímyndaðu þér að vinna þúsund metra hlaup, alveg sama hvað þú ert góður, þegar sá sem er við hliðina á þér fær 500 metra afslátt. Í upphafi hvers árs er tékkinn bara kominn í Efstaleiti,“ segir Jón Ásgeir í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.

Hann viðrar þeirri hugmynd að í stað þess að ríkissjóður leggi árlega um 5 milljarða króna í Ríkisútvarpið, líkt og nú er gert, að þá sé þeim fjármunum fremur ráðstafað beint í kvikmynda- og tónlistariðnaðinn.

„Það fara fimm milljarðar ofan í kvörnina og það kemur kannski bara einn út sem fer í tónlist og kvikmyndir. Í staðinn færu bara fimm milljarðar beint í [kvikmynda- og tónlistarbransann],“ segir Jón Ásgeir í umræðum um menningarhlutverk RÚV.

Hann tekur fram að ákveðnir hlutir innan RÚV séu vel gerðir „en það er ekki þar með sagt að það væri ekki að gera það hjá frjálsum miðlum“. Þá minnist hann á að breski ríkisfjölmiðilinn BBC sé ekki á auglýsingamarkaði líkt og RÚV. „Það skiptir rosalega miklu máli að þeir séu ekki að taka þá köku.“

„Ég velti [spurningunni] alltaf fram: Ef RÚV væri ekki til, myndi einhverjum detta í hug að leggja það til á Alþingi að hér yrði stofnað ríkisútvarp. Ég held að þetta myndi ekki ná brautargengi.“

Saknar ekki fjölmiðlabransans

Jón Ásgeir og Ingibjörg áttu um árabil 365 miðla, sem rak Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og gaf út Fréttablaðið. Þau seldu 365 miðla til Sýnar árið 2017 og síðar Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, til Helga Magnússonar.

Spurður hvort hann sakni fjölmiðlabransans svarar Jón Ásgeir neitandi. „Ég held að það sé ansi langt í [söknuð]. Þetta er áhugaverður bransi. Það ættu flestir að prófa þetta – í stuttan tíma.“