Enginn þeirra sem nú starfar hjá Samkeppniseftirlitinu er með réttarstöðu grunaðs manns vegna rannsóknar á því þegar gögnum var lekið frá Samkeppniseftirlitinu til Kastljóss um kæru á hendur ellefu starfsmönnum Eimskips og Samskipa til sérstaks saksóknara. Kemur þetta fram í yfirlýsingu frá Samkeppniseftirlitinu sem birt er á heimasíðu þess.

Tilefnið er frétt sem birtist í Morgunblaðinu í dag þar sem m.a. var sagt var að starfsmaður eftirlitsins væri með réttarstöðu grunaðs í málinu. Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, ekki staðfesta það hvort fyrrverandi starfsmaður eftirlitsins væri með réttarstöðu grunaðs í málinu.