Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að samskipti við stjórnvöld síðustu fjögurra ára hafi verið ágæt. Óánægju hafi þó gætt vegna eignaskatts sem lagður var á sjóðina, og samskipti vegna hans hafi verið erfið.

Þegar Gunnar er spurður um þátttöku lífeyrissjóðanna í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans og hvort sjóðirnir hafi flutt eignir heim í gegnum leiðina vegna pólitísks þrýstings þá svarar hann því neitandi. "Við gerðum samkomulag um þátttöku í febrúar 2012 og stóðum við það. Í dag er engin þrýstingur á að sjóðirnir taki þátt, og ég held að þeir séu ekki mjög virkir. Menn vilja verja erlendar eignir sínar," segir hann.

Þegar hann er inntur frekar eftir því hvernig samskipti hafi verið við stjórnvöld síðustu fjögurra ára, segir Gunnar að þau hafi verið ágæt. "Við glímdum við erfið viðfangsefni. Við vorum ósátt með eignarskattinn sem við fengum á okkur og samskipti vegna hans voru erfið," segir hann og vísar þar til skatts sem átti að leggja á tímabundið í tvö ár til að greiða fyrir hlut lífeyrissjóða í sérstökum vaxtaniðurgreiðslum. "Við minnum á að iðgjöld fara óskattlögð inn í sjóðina en tekjuskattur er greiddur af lífeyrisgreiðslum eins og öðrum tekjum. Allur aukaskattur felur í sér tvísköttun," segir hann en skatturinn var að lokum aðeins í eitt ár.

Ítarlegt viðtal við Gunnar er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag, fimmtudag. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentuðu útgáfu blaðsins og er því birtur í heild sinni á vb.is.