Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, er sjálfstæðismaður, eins og kunnugt er, og studdi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formanns á síðasta landsfundi flokksins. Þá gengu sögusagnir um að sá stuðningur hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum, og Halldóri tjáð að stuðningurinn gæti haft áhrif á stöðu hans sem formaður sambandsins. Spurður um þessar sögur segir Halldór að hann hafi heyrt þær.

„En það hefur enginn sagt þetta við mig. Ég heyrði þær strax á landsfundinum. Ég held hins vegar að það sé eins og oft, þegar hiti er í fólki sem keppir að ákveðnu markmiði, að það missir eitthvað út úr sér. Enginn gerði það hins vegar í samtölum við mig. Áhyggjur mínar af þessu eru því nákvæmlega engar og það sýnir styrk Sjálfstæðisflokksins að komast í gegnum svona mál, hann er opinn og lýðræðislegur.

Ég hef þekkt Hönnu Birnu lengi, starfað með henni og er mikill stuðningsmað- ur hennar í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur.“ Halldór tekur fram að það hafi ekki verið auðvelt að hringja í sitjandi formann, Bjarna Benediktsson, og tilkynna honum um hvar hans stuðningur lægi. „En svo er landsfundi lokið, átök þar að baki og ég styð að sjálfsögðu okkar forystu.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins má finna ítarlegt viðtal við Halldór. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.