Leiðtogar Evrópusambandsins hafa sagt grískum stjórnvöldum að ekki verði gengið frá neinu samkomulagi sem felur í sér afhendingu á neyðarláni til Grikkja án samþykkis Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AGS hefur verið einarðari en ESB í þeirri afstöðu að ekki muni koma til afhendingar á fjármagninu án þess að Grikkir skuldbindi sig til að framkvæma aðhalds- og hagræðingaraðgerðir í rekstri ríkissjóðs sem uppfylla kröfur lánadrottna.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði á fundi með Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, að staðan væri þessi. Í frétt Financial Times segir að embættismenn AGS hafi ekki trú á því að gríska stjórnin muni ná þeim rekstrarmarkmiðum sem að var stefnt með samkomulagi við fyrri ríkisstjórn landsins, enda hafi ríkisstjórn Tsipras snúið við mörgum hagræðingaraðgerðum fyrri ríkisstjórnar.

Starfsmenn AGS segja að sjóðurinn muni ekki afhenda neyðarlánið án þess að fyrir liggi alhliða samningur um rekstur gríska ríkissjóðsins, sem fæli í sér trúverðuga áætlun um lækkun ríkisskulda.