Samninganefndir Íslands, Færeyja, Noregs og ESB komust ekki að samkomulagi í makríldeilunni eftir fundarhöld í Reykjavík um helgina. Fundinum lauk í dag en næsti fundur verður í október á reglubundnum strandríkjafundi í Lundúnum. Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV.

Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samninganefndar Íslands, segir ástæðu til frekari viðræðna og að andrúmsloftið á fundinum hafi verið jákvætt. Hann segist vona að ekki komi til refsiaðgerða ESB á meðan viðræðurnar séu á þessu stigi.