Samningafundi flugvirkja og SA/Icelandair lauk um sjöleytið í kvöld, en niðurstaða hafði ekki fengist. Því er næsti fundur boðaður kl. 14 á morgun í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Vinnustöðvun flugvirkja hefst kl. sex í fyrramálið og mun standa í sólarhring. Mikið ber enn í milli samkvæmt upplýsingum segir í frétt á vef RÚV .

Allsherjarverkfall flugvirkja hefst á fimmtudaginn ef samningar nást ekki fyrir þann tíma. Næstum allt millilandaflug Icelandair hefur verið fellt niður á morgun, en sú ákvörðun hefur áhrif á um 12.000 farþega. Ekki er útilokað að Alþingi verði kallað saman næstu daga til að setja lög á vinnudeiluna.

Maríus Sigurjónsson, formaður samninganefndar flugvirkja, telur það ólöglega ráðstöfun, verði sett lög á Alþingi til þess að stöðva verkfallsaðgerðir þeirra.

Ákveði stjórnvöld að stöðva verkfallsaðgerðirnar með lögum þarf að kalla Alþingi saman vegna þess að innanríkisráðherra hefur útilokað möguleikann á að setja bráðabirgðalög.

Lög voru sett á vormánuðum til að stöðva verkfallsaðgerðir flugmanna hjá Icelandair og starfsmanna á Herjólfi. Maríus Sigurjónsson segir þetta sorglega þróun og löggjafinn fari með þessu mikið fram úr sér. „Mér kæmi það verulega á óvart ef það yrði reynt og tel að það sé ólögleg ráðstöfun. Þetta gengur í berhögg við ákvæði um félagafrelsi, bæði stjórnarskrá og mannréttindasáttmála,“ segir hann.