Stjórn Glitnis hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar fjölmiðla um mögulegan samruna innlendra bankastofnana. Vill stjórn Glitnis taka fram að engar umræður þar að lútandi hafi átt sér stað innan stjórnar Glitnis.
"Á undanförnum árum hefur Glitnir styrkt stöðu sína verulega með markvissum vexti, einkum á Norðurlöndunum og í Norður-Evrópu. Glitnir hefur gengið í gegnum umfangsmikið umbreytingarferli til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini og hluthafa bankans. Bankinn hefur nú starfsstöðvar í tíu löndum og starfsemi um allan heim. Staða bankans á heimamörkuðum hans á Íslandi og í Noregi er mjög góð og rekstur bankans hefur gengið afar vel á undanförnum árum. Á árinu 2006 tvöfölduðust tekjur og hagnaður bankans frá fyrra ári og nam hagnaðurinn rúmum 38 milljörðum króna.
Forsvarsmenn bankans hafa lýst því yfir að stefnt sé að áframhaldandi markvissum innri og ytri vexti. Það skal ítrekað að samruni við innlenda fjármálastofnun hefur aldrei verið rædd í stjórn bankans, sem fer með æðsta vald félagsins á milli aðalfunda," segir orðrétt í yfirlýsingunni.
Undir þessa yfirlýsingu ritar Einar Sveinsson fyrir hönd bankans, en hann er formaður stjórnar Glitnis banka hf.