Talið berst að stöðu ferðaþjónustunnar í dag en eins og mikið hefur verið rætt og ritað um hefur afkoma í greininni farið versnandi á síðustu misserum auk þess sem hægt hefur á vexti í komu ferðamanna til landsins. Að mati Jóns þarf að byggja ferðaþjónustunni sterkara bakland meðal ráðamanna. „Ferðaþjónustan hefur fengið að þróast upp í að verða stærsta atvinnugrein á Íslandi. Hún hefur gert það á tiltölulega skömmum tíma og án þess að það sé búin til atvinnustefna í kringum ferðaþjónustuna, sem tæki á hlutum eins og hvernig stýrum við ferðaþjónustunni, hvað viljum við fá hingað marga gesti, hver eru þolmörk svæða o.s.frv.

Ferðamennska í heiminum vex um 5% á ári og hefur gert það síðustu 50 ár. Spár um framtíðarvöxt ferðaþjónustu í heiminum eru á svipuðu róli og er gert ráð fyrir að hún haldi áfram að vaxa um 5% til 2030. Ef þú tekur 5% sem aukningu á Íslandi á ári ertu kominn í 4,5 milljónir árið 2030 og 6,5 milljónir árið 2030. Ísland er á margan hátt áhugaverðara heldur en meðaltalið þar sem við erum norðarlega, erum öruggt land, hér er mikið að gera og það er mikil náttúra. Auk þess er Ísland afþreyingarland og þessi lönd sem falla undir þessa skilgreiningu hafa tilhneigingu til þess að vaxa hraðar heldur en meðaltalið. Það eru því töluverðar líkur á að við höldum áfram að vaxa þó að núna sé að eiga sér stað smá hæging eða tímabundin stöðnun. Þetta mun síðan leiðréttast einhvern veginn en svo heldur þetta bara áfram á þessum hraða sem ég nefndi.

Þegar kemur að þessari atvinnustefnu og fyrrgreindum vexti og maður spyr ráðamenn hvert við ætlum að fara, þá er enginn með svör við því. Það er vissulega einhver vinna í gangi í Stjórnstöð ferðamála sem tekur kannski á þessu að einhverju leyti. En á móti er stjórnkerfið sem stendur við bakið á þessu ekki tilbúið til að taka við þessari atvinnustefnu og stýra henni. Það kemur til af því að það er ekki til stjórnkerfi til þess að stýra því. Það virðist enginn eiga boltann.

Það má bera þetta saman við sjávarútveg okkar Íslendinga sem er um margt vel rekinn og er stýrt af sterku kerfi. Ef eitthvað gerist í sjávarútvegi eða það bjátar á, þá tekur sjávarútvegsráðherra boltann, studdur af Hafrannsóknastofnun ef þarf. Ef eitthvað gerist í ferðaþjónustunni þá spyr maður sig hver myndi taka boltann. Er það ferðamálaráðherra eða er það umhverfisráðherra, fjármála- eða forsætisráðherra? Ég rek eitt af stærri fyrirtækjum í íslenskri ferðaþjónustu og ég get ekki einu sinni svarað þessari spurningu sjálfur. Það sem brennur á mér er að ef við ætlum að taka ferðaþjónustuna áfram og skipuleggja hana og gera að þessari atvinnugrein sem hún bæði er orðin og á að vera þá er nauðsynlegt að við styrkjum ferðamálaráðuneytið svo það geti verið sá aðili sem stýrir atvinnustefnu greinarinnar. Það þarf að vera til staðar ráðuneyti sem er stutt og byggt upp af rannsóknum í stað ákvarðana sem byggðar eru á huglægu mati eða tilfinningum eins og allt of mikið er af. Í dag þá liggur þetta í mörgum ráðuneytum og umhverfisráðuneytið hefur í raun jafn mikið eða meira með ferðamálin að gera heldur en ferðamálaráðuneytið sjálft. Það er alls ekki gott enda er tilgangur umhverfisráðuneytis að starfa þvert á önnur ráðuneyti en ekki að reka heila atvinnugrein.  Það mundi eitthvað verða sagt ef umhverfisráðuneytið færi að gefa út kvóta í sjávarútvegi og ráðskast með atvinnustefnu þess iðnaðar.“

Í sátt við samfélgið og umhverfið

Að lokum hvað er framundan hjá Arctic Adventures?

„Framtíð Arctic Adventurs er björt. Afkoma síðustu ára hefur verið góð og þá er einnig útlit fyrir að árið í ár verði ágætt þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Áfram munu vera möguleikar á kaupum og sameiningum og er ekki ólíklegt að eitthvað gerist í þá áttina á næstu misserum. Búið er að skapa fjárhagslegan grundvöll í kringum fyrirtækið og snúa næstu verkefni að umhverfismálum og málefnum sem snúa að samfélaginu. Við teljum nauðsynlegt að ferðaþjónustan og þar með Arctic Adventures séu rekin í góðri sátt við samfélagið í landinu og fólkið á hverjum stað sem við störfum. Við erum að byrja með nýtt átak í þessum málum á sama tíma og við hlúum að umhverfinu, mosanum og steinunum, sem við nýtum í okkar starfi á hverjum degi.“

Nánar er rætt við Jón Þór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .