„Jú, það er bullandi aukning,“ segir Aðalsteinn H. Magnússon, sölustjóri í Mjólkursamsölunni, aðspurður um  smjörsölu það sem af er ári.

Skömmu fyrir jól á síðasta ári komst smjörskortur í Noregi í hámæli. Norska mjólkursamsalan Tine hefur nú gripið til þess ráðs að flytja inn 200 tonn af smjöri fyrir þessi jól. Sala á smjöri í Noregi jókst um 13% á fyrstu mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil á síðasta ári. Nánar má lesa um áform Tine hér .

„Það hefur verið vakning fyrir náttúrulegum vörum og smjörið virðist svo sannarlega falla í þann flokk,“ segir Aðalsteinn. „Fólk er til dæmis að skipta út smjöri eins og Létt & Laggott fyrir þetta gamla góða.“ Samkvæmt Aðalsteini hefur smjörsala hér á landi aukist um 7% á fyrstu sex mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Sama gildir um Smjörva sem er vinsælasta gerðin hjá Mjólkursamsölunni. Sala á Smjörva hefur aukist um 4% á þessum fyrstu sex mánuðum ársins. „Það er alltaf smá samdráttur í mjólkinni en sala á henni hefur dregist saman um 2%,“ segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn hlær við þegar blaðamaður spyr um mögulegan smjörskort hér á Íslandi. „Við gerum nákvæmar áætlanir og það verður örugglega nóg smjör til fyrir jólabaksturinn í desember,“ segir Aðalsteinn.