Þriggja daga hlutafjárútboði Play, þar sem hluthöfum öðrum en þeim 20 stærstu bauðst þátttaka, lauk í gærkvöldi. Enginn af rúmlega 2 þúsund hluthöfum Play tók þátt í útboðinu.

„Þar sem markaðsgengi hlutabréfa félagsins er lægra en fyrrnefndum hluthöfum bauðst var eðli máls samkvæmt hverfandi þátttaka í síðarnefnda útboðinu,“ segir í tilkynningu sem Play sendi til Kauphallarinnar í gær.

Play efndi til framangreinds hlutafjárútboðs í kjölfar þess að félagið safnaði bindandi áskriftarloforðum að nýju hlutafé að andvirði 2,3 milljarðar króna með samningum við 20 stærstu hluthafa flugfélagsins. Útgáfugengið á hvern hlut var 14,6 krónur en auk þess fá þeir áskriftarréttindi sem nema 25% af hlutafjárútgáfunni.

Með útboðinu fyrir minni hluthafa sagðist flugfélagið fyrst og fremst vera að tryggja jafnræði hluthafa.

„Með bindandi áskriftarloforðum 20 stærstu hluthafa félagsins, sem tilkynnt hefur verið um, hafi félagið nú þegar tryggt þá hlutafjárhækkun sem félagið stefnir að. Útboðið sé því fyrst og fremst til þess að tryggja jafnræði hluthafa. Nýti aðrir hluthafar rétt sinn til að skrá sig fyrir nýju hlutafé styrkist lausafjárstaða félagsins enn frekar,“ sagði í tilkynningu Play þegar útboðið var kynnt.

Hlutabréfaverð Play, sem er skráð á First North-markaðinn, lækkaði töluvert í byrjun mánaðarins og hefur verið undir 14 krónum á hlut frá 7. nóvember síðastliðnum. Dagslokagengi bréfanna fór lægst í 12,6 krónur dagana 21. og 22. nóvember.

Play tilkynnti í gær að stjórn félagsins hefði nýtt heimild til að hækka hlutafé með útgáfu á 157.534.246 nýjum hlutum, sem samsvarar nákvæmlega áskriftum 20 stærstu hluthafanna. Útgefið hlutafé félagsins hækkar því úr 703.333.331 krónum í 860.867.578. Ljóst er því að enginn af minni hluthöfum félagsins tók þátt í útboðinu sem lauk í gær.