Engum Íslendingi hlotnast sá heiður að vera á lista Heimsviðskiptaþingsins (World Economic Forum) yfir unga forystumenn á heimsvísu (Young Global Leaders) fyrir árið 2008, en listinn var kynntur í dag. Björgólfur Thor Björgólfsson, fjárfestir, komst á listann 2005 og Ólafur Elíasson, myndlistarmaður, árið 2006.

WEF tilnefnir á hverju ári 100-300 unga forystumenn, menn og konur undir fertugu, sem hafa unnið afrek á sviði lista, stjórnmála, viðskipta, fræða, fjölmiðlunar eða þjóðfélagsmála, svo eitthvað sé nefnt. Á listanum fyrir 2008 má finna 121 unga „leiðtoga” frá 65 þjóðlöndum.

Skilyrði er að viðkomandi sé undir fertugu, hafi umtalsverða reynslu af því að stjórna á sínu sviði, hafi með skýrum hætti sýnt fram á hann vilji þjóna samfélagi manna og er tilbúinn að verja kröftum, reynslu og þekkingu sinni til að kljást við brýnustu úrlausnarefni sem blasa við heiminum.

Á meðal þeirra sem eru á listanum í ár má nefna Larry Page og Sergey Brin, sem unnu að stofnun Google- leitarvélarinnar, Hákon Noregsprins, Malvinder M. Singh, forstjóra Ranbaxy rannsóknarstofnunarinnar, Hiroshi Nakada, borgarstjóra Yokohama í Japan, leikarann Leonardo DiCaprio, íþróttakonuna Steffi Graf, japanska rithöfundinn Risa Wataya og tónskáldið kínverska Lei Liang.

Þess má geta að Danir eiga tvo fulltrúa á listanum, Frakkar níu, Þjóðverjar átta, Ítalir þrjá, Írar einn, Hollendingar tvo, Rússar þrjá, Spánverjar þrjá og Svíar þrjá, þar á meðal fjármálaráðherra sinn, Anders Borg. Bandaríkjamenn og Kínverjar eru fjölmennastir á listanum, þeir fyrrnefndu 41 talsins og þeir síðarnefndu 31 talsins. Á listanum eru 17 Indverjar.