Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir ákvörðunina um að hækka stýrivexti um 0,25 prósent skýrast af því að gríðarleg örvun ýti nú undir efnahagslífið. Bæði séu raunvextir sögulega lágir, eða neikvæðir um 2,5%, ásamt því að mikill hvati komi inn í hagkerfið í formi stuðningsaðgerða. „Við vildum því aðeins hægja á þessari þróun. Betra er að bregðast við fyrr en seinna,“ segir Ásgeir.

Meðal ástæðna sem peningastefnunefndin gaf fyrir hækkuninni voru að horfur um hagvöxt í ár væru hærri en Seðlabankinn hafði spáð. Gagnrýnisraddir eru uppi um að vaxtahækkunin hafi verið ótímabær í ljósi óvissu í tengslum við Delta-afbrigði Covid-19-farsóttarinnar.

„Við teljum að Delta-afbrigðið muni ekki hafa umtalsverðar efnahagslegar afleiðingar fyrir landið. Við teljum að bólusetningar séu að koma í veg fyrir alvarleg veikindi, þó svo að þær komi kannski ekki í veg fyrir sýkingar,“ segir Ásgeir.

Verðbólga hefur mælst yfir efri mörkum markmiðs Seðlabankans frá upphafi árs og peningastefnunefnd telur að verðbólgan verði ekki komin í markmið fyrr en á seinni hluta næsta árs. Enn er töluverður verðbólguþrýstingur í íslenska hagkerfinu að sögn Ásgeirs.

Hann nefnir sem dæmi að launastig hafi hækkað hérlendis í gegnum faraldurinn. Þá hafi hækkun á fasteignaverðs komið í veg fyrir að verðbólgan hjaðnaði í sumar. Ásgeir bendir á að mjög mikið af ungu fólki hafi verið að koma inn á markaðinn og síðasta ári kom inn metfjöldi af fyrstu kaupendum inn á fasteignamarkaðinn sem ýti undir eftirspurn.

„Á sama tíma liggur fyrir að framboðið er ekki að ná að halda í við þetta. Við getum ekki verið að hvetja áfram eftirspurnin ef það er ekkert framboð til þess að mæta henni. Það leiðir bara til verðhækkana og að fólk fari að taka of mikla fjárhagslega áhættu.“

Ríkið verður að draga sig í hlé

Ásgeir segist vona að Seðlabankinn þurfi ekki að hækka vexti jafn mikið og áður til þess að halda verðstöðugleika. Hann horfir jafnframt til þess að vaxtastig til lengri tíma verði lægra en verið hefur. Ásgeir nefnir í þessum efnum mikilvægi þess að ríkissjóður dragi úr útgjöldum þegar hagkerfið tekur við sér.

„Það var mikil nauðsyn að ríkið réðst í útgjaldaaukningu á síðasta ári þegar hagkerfið fór í mikla lægð. Nú þegar hagkerfið er að rétta við sér þá verður ríkið að draga sig í hlé. Ef opinberi geirinn ætlar að taka lán til þess að fjármagna útgjöld sem eru umfram tekjur, þá er það klárlega að keyra upp langtímavexti.“

Áhersla á innviði fremur en millifærslur

Ásgeir sagði í vikunni að nýtt framfaraskeið þjóðarinnar væri að hefjast. Aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónustan hafa dafnað að undanförnu og með því séu ný störf að skapast. Auk þess sé ferðaþjónustan sjálf að taka við sér. Ásgeir segist vilja sjá auknar innviðaframkvæmdir til að styðja við hagvöxt.

„Það hefur verið mikið um millifærslur í ríkisútgjöldum á síðustu árum í stað þess að leggja áherslu á fjárfestingar. Besta leiðin fyrir hið opinbera til að örva hagvöxt er að styðja við uppbyggingu innviða,“ segir Ásgeir. „Það liggur fyrir að vegakerfi landsins, sérstaklega í kringum Reykjavík, er nokkrum númerum of lítið fyrir þjóðina. Hver sá sem reynir að komast út úr bænum síðdegis áttar sig á því.“

Enginn vafi að krónan hafi hjálpað

Ásgeir segir að í samanburði við erlenda seðlabanka hafi Seðlabanki Íslands haft meira svigrúm til þess að beita peningastefnunni og lækka vexti í byrjun faraldursins.

„Aukið svigrúm til vaxtalækkana gerði okkur kleift að örva kerfið verulega. Áfallið fyrir ríkissjóð var því mun minna vegna þess að aðgerðir okkar örvuðu spurn innanlands sem leiddi til minna tekjufalls fyrir ríkissjóðs en ella. Það liggur fyrir að ef við hefðum ekki verið með krónuna þá hefðum við þurft að beita ríkisfjármálum í talsvert meiri mæli. Við hefðum ekki að náð að örva kerfið jafn mikið. Það er enginn vafi á því að krónan hafi hjálpað okkur verulega,“ segir Ásgeir.

Nánar er rætt við Ásgeir í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .