Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir ljóst að Sigmundur hættir sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi taki við. Þetta kemur fram í viðtali hans við Stundina.

Yfirlýsing Sigmundar til erlendra fjölmiðla hefur valdið miklum vangaveltum og óvissu síðan hún var birt. Í henni segir: „Í dag hefur forsætisráðherra Íslands, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lagt til við þingflokk Framsóknarflokksins að varaformaður flokksins taki við forsætisráðuneytinu um ótilgreindan tíma. Forsætisráðherra hefur ekki sagt af sér og mun halda áfram formennsku í Framsóknarflokknum,“.

Orðalag yfirlýsinarinnar hefur valdið því að óljóst þykir hvort ráðstöfunin sé tímabundin eða ekki.

Í samtali við Morgunblaðið lýsti Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, yfirlýsingunni sem tæknilegri áréttingu. „Það var lagt til við þing­flokk­inn að [Sig­mund­ur] stigi til hliðar og Sig­urður Ingi tæki við embætt­is­skyld­um ráðherra um lengri eða skemmri tíma, eft­ir því sem semd­ist milli flokk­anna. Þannig að þetta er nú bara ná­kvæm­lega það sem gerðist, og bara til að svara spurn­ing­um um hvort hann sé bú­inn að segja af sér eða ekki. Þetta er bara tækni­lega rétt,“ segir Jóhannes. Hann segir að til að segja af sér þurfi forseti að hafa veitt ráðherranum lausn, samkvæmt 15. grein stjórnarskrárinnar. „Það má vel vera að ein­hverj­ir mis­skilji þetta. En þetta er svona.“