Ólíkt íslenska miðaldameistaraverkinu Lilju, sem allir eru sagðir viljað kveðið hafa, vill enginn kannast við að hafa lagt til að skattur yrði lagður á allar innstæður í kýpverskum bönkum. Í frétt Bloomberg er farið yfir langan lista af fjármálaráðherrum, seðlabankastjórum og meðlimum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem benda hver á annan og segjast saklausir af því að hafa fengið þessa gríðarlega óvinsælu hugmynd.

Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, var fyrstur til að taka í gikkinn í þessari hringlaga aftökusveit. Sagði hann að hugmyndin væri afsprengi evrópska seðlabankans, framkvæmdastjórnarinnar og ríkisstjórnar Kýpur. Fjármálaráðherra Frakklands, Pierre Moscovici, segist hafa viljað undanskilja innstæður undir 100.000 evrum og Maria Fekter, fjármálaráðherra Austurríkis segir að seðlabankinn hafi hafnað slíkum undanþágum.

Jörg Asmussen, sem situr í framkvæmdastjórn seðlabankans, segir bankann hins vegar saklausan. Bankinn hafi ekki krafist þess að innstæðuskatturinn yrði með þeim hætti sem hann á endanum varð í tillögunum. Aðrir sem ekki vilja kannast við að vera höfundar skattsins eru fjármálaráðherra Spánar, Luis de Guindos, fjármálaráðherra Finnlands, Jutta Urpilainen og framkvæmdastjórnin í heild sinni, sem sagðist ekki hafa litist á pakkann eins og hann leit út.

Líklegt má telja að fjármálaráðherra Lúxemborgar, Luc Frieden, hafi hitt naglann á höfuðuð þegar hann hreinlega kenndi öllum ofantöldum um. Sagði hann að um erfiða málamiðlun hefði verið að ræða sem öll aðildarríki evrusvæðisins, framkvæmdastjórnin, seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefðu samþykkt.