Ríkisstjórn Spánar undirbýr nú að koma lífinu í landinu aftur í eðlilegt horf í tveimur skrefum, eftir nær algert samskiptabann vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins sem leikið hefur landið grátt síðustu vikur.

Í fyrra skrefinu verður framleiðslu og atvinnulífi komið aftur í gang fyrir sumarið en seinna skrefið verður hugsanlega ekki fyrr en í lok árs, en þá verði opnað á ný fyrir komur erlendra ferðamanna og á skemmtanahald.

Þar með verður mannlífið hugsanlega ekki að fullu komið í eðlilegt horf fyrr en um jólin komandi og varar Yolanda Diaz ráðherra atvinnumála í spænsku ríkisstjórninni við því að ferðamennska, menningarstarf, veitingastaðir og ferðir um loft og höf yrðu fyrir miklum áhrifum og erfiðleikum.

Jafnframt yrðu frekari tafir á því að barir, veitingastaðir, hótel, tónleikahald, leikhús og bíósalir myndu opna á ný að því er spænski fréttavefirnir Marca og El País greina frá.

Diaz sagði þó ljóst að lokaákvörðunin um hvað gæti hafist á ný lægi hjá ráðherra heilbrigðismála, sem tæki ákvörðun þegar lægi fyrir að stjórn væri komin á útbreiðslu veirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum sem dreifst hefur um heiminn frá Kína síðustu mánuði og ekki væri hætta á frekara smiti.