Stjórnvöld hafa ekki tekið upp formlegar viðræður við lífeyrissjóðina um þátttöku þeirra í fyrirhuguðum útboðum aflandskróna. Eins og fram kemur í áætlun um afnám gjaldeyrishafta er sjóðunum ætluð stór rulla í útboðunum enda ráða þeir yfir miklum eignum í erlendri mynt.

Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir í samtali við Morgunblaðið að aðeins hafi farið fram einn óformlegur fundur Seðlabanka og lífeyrissjóða í tengslum við áætlunarvinnuna. Hann segir jafnframt að erlendar eignir sjóðanna séu almennt taldar þær verðmætustu í eignasafni þeirra nú um stundir. Erlend verðbréfaeign sjóðanna nemur um 500 milljörðum króna.

Eins og fram kemur í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag kemur áætlunin illa við lífeyrissjóðina og segir Arnar Sigurmundsson, formaður LL, það vonbrigði hversu langan tíma menn hyggist taka sér við afnám hafta.