Ekki voru gerðir fyrirvarar í kaupsamningum sem sneru að mögulegum skaðabótakröfum á hendur Olíuverzlunar Íslands (Olís) vegna olíusamráðsins, að sögn Gísla Baldurs Garðarssonar, stjórnarformanns og lögmanns félagsins.

Þá segir hann að nýir eigendur Olís geti ekki sótt bætur úr höndum fyrri eigenda ef til þess kæmi að félagið yrði dæmt bótaskylt vegna athafna sinna. Heimildir Viðskiptablaðsins innan Skeljungs herma að kröfurnar muni lenda á fyrri eigendum félagsins.

Skeljungur hf., Ker hf. og Olíuverzlun Íslands voru dæmd til tæplega 80 milljóna króna sektargreiðslu vegna olíusamráðs í héraðsdómi Reykjavíkur um miðjan desember. Nýir eigendur eru að olíufélögunum þremur, Olís, Skeljungi og Esso en aðilar að samráðsmálinu eru Skeljungur hf., Olíuverslun Íslands (Olís) og Ker hf.