Engir Íslendingar reyndust vera á listanum fræga sem þýsk skattayfirvöld keyptu af fyrrverandi starfsmanni LGT bankans í Liechtenstein.

„Það voru að vísu nöfn Skandinava á listanum en eftir því sem við komumst næst reyndust engin nöfn Íslendinga á honum,“ segir Eduard Güroff, yfirsaksóknari hjá saksóknaraembættinu í Bochum, sem yfirfarið hefur listana og sent upplýsingar áfram til skattayfirvalda í öðrum löndum.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri vildi ekkert tjá sig um málið í gær þegar eftir því var leitað.

„Samskipti sem þarna eiga sér stað [milli íslenskra og þýskra skattayfirvalda] eru á grundvelli tvísköttunarsamninga. Um þau tjá skattayfirvöld sig ekki.“

Skattayfirvöld á Íslandi settu sig í samband við þýsk skattayfirvöld fljótlega eftir að málið komst upp og fóru fram á að fá afhentar allar upplýsingar sem hugsanlega snertu íslenska ríkisborgara og íslensk fyrirtæki.