Ekki er gert ráð fyrir íslenskum sjúklingum á nýjum einkareknum spítala sem reisa á í Mosfellsbæ.

Mega koma á eigin kostnað

„Við erum ekki að sækjast eftir neinum íslenskum sjúklingum en hins vegar ef einhverjir leita til okkar og vilja gera það á eigin kostnað þá munum við ekki neita því. En við munum á engan hátt taka við Íslendingum á kostnað íslenska heilbrigðiskerfisins,“ segir Gunnar Ármannsson stjórnarformaður MCPB sem stendur að framkvæmdunum í samtali við Vísi .

„Hugmyndin er að flytja þarna inn erlenda sjúklinga, fyrst og fremst frá Evrópu.“ Munu tryggingafélög sjúklinganna greiða fyrir aðgerðirnar, en langir biðlistar séu í þeim miðstöðvum sem Brugada rekur í Evrópu, og hótelið mun vera fullbókað um leið og það tekur til starfa.

Lofað 6% ávöxtun

Er fjárfestum sem leggja fé í spítalann lofað arðgreiðslu sem nemur að minnsta kosti sex prósentum af fjárfestingu þeirra árlega, segir Hendrikus Middeldorp framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Verkefnið er að fullu fjármagnað með láni frá móðurfélaginu Burbanks Capital, en félagið er reiðubúið að endurfjármagna verkefnið því þeir telji það samfélagslega skyldu sína að hleypa almenningi að borðinu enda séu vextir í Evrópu víða neikvæðir.

Var auglýst eftir fjárfestum á facebook síðu félagsins, en þeir gátu til síðustu mánaðarmóta lagt verkefninu fé gegn allt að 8% ávöxtun til fimm ára.

150 herbergja spítali auk 250 herbergja hótels

Í gær undirritaði Mosfellsbær samkomulag við MCPB um lóð undir 30 þúsund fermetra byggingu undir spítalann í gær, er vonast eftir að framkvæmdir hefjist næsta vor og þeim ljúki 2019 til 2020.

Er áætlaður kostnaður 47 til 54 milljónir króna. Verður spítalinn með 150 herbergi og hótel sem byggt er sem hluti af verkefninu verður með 250 herbergi og skapast um 1.000 störf.