„Það er forgangsatriði að semja við kröfuhafa og ná fram fjármálastöðugleika áður en við förum að tala um það hvernig við ætlum að dreifa peningunum. Þetta er eitt þeirra atriða sem við þurfum að leysa áður en við getum lagt fjármagnshöftin af,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Hún var með erindi í morgun á fundi bankans um efnahagshorfur fram til ársins 2015 og afnám hafta. Fram kemur í hagspá bankans að aðstæður séu slíkar í hagkerfinu að ef við höldum áfram á sömu braut þá eru útlit fyrir að hér séu fremur daprar hagvaxtarhorfur framundan.

Ásdís bendir á það í samtali við vb.is að mikilvægt sé að fólk átti sig á því að þeir fjármunir sem verið sé að lofa, s.s. til leiðréttingar á skuldum heimilanna, séu ekki fastir í hendi.

Verulega hægir á efnahagsbatanum

„Við teljum raunhæft að ætla að innlendar eignir í eigu erlendra kröfuhafa verði hér seldar á afslætti. En hversu mikill afslátturinn verður er ekki fast í hendi. Það er alveg ljóst að við verðum að finna lausn á snjóhengjuvandanum. Við getum ekki afnumið höftin vitandi að það eru 1.200 milljarða krónur í eigu erlendra aðila fastar inni í hagkerfinu án þess að hafa hugmynd um hverjir af þeim eru þolinmóðir og hverjir eru óþolinmóðir. Í þessu samhengi er því ekki síður mikilvægt að stjórnvöldi komi fram með trúverðugt plan um það hvernig við ætlum að opna hagkerfið á nýjan leik í komandi framtíð. Það er ekki nóg tiltrú á íslensku hagkerfi,“ segir Ásdís og bætir við að staða efnahagslífsins sé ekki efnileg. Vísbendingar hrannist upp að verulega sé að hægja á efnahagsbatanum. Miðað við nýjustu upplýsingar um kortaveltu heimila er útlit fyrir að einkaneysla hafi hugsanlega dregist saman á fyrsta fjórðungi ársins

Hún benti m.a. á það á fundinum í morgun að til að rjúfa vítahring milli lítils hagvaxtar og hægagangs við afnám hafta sé mikilvægt að gjaldeyrisskapandi fjárfesting komist í gang.

„Fjárfesting er í algjöru lágmarki. Til að við getum stuðlað að sjálfbærni hagvaxtar á komandi árum þá þurfum við að koma fjárfestingu í gang,“ segir hún.