Fyrirtækið AGR Dynamics, sem býður upp á innkaupaog birgðastýringalausnir, hefur vaxið hratt á undanförnum árum og vinna í dag um 70 manns hjá fyrirtækinu á skrifstofum hér á landi, sem og á skrifstofum í Danmörku, Bretlandi og Kanada. Haukur Þór Hannesson, framkvæmdastjóri AGR, segir að fyrirtækið hafi að jafnaði vaxið um yfir 25% á hverju ári undanfarin fimmtán ár.

„Um helmingur starfsfólksins starfar á skrifstofunni hér á Íslandi við að þróa og innleiða lausnina okkar, en tæplega 90% af tekjum fyrirtækisins koma erlendis frá. Það er kannski þess vegna sem margir hafa ekki heyrt um okkur, en þau fyrirtæki sem helst þurfa á okkar lausn að halda vita af okkur. Langflestu íslensku smásalarnir og stóru heildsalarnir eru með kerfið okkar," segir hann, en meðal fyrirtækja sem nýta sér lausn AGR hér á landi má nefna Krónuna, Innnes og Olís. Þar að auki nýta stórar erlendar smásölukeðjur líkt og Søstrene Grene og BoConcept sér lausn fyrirtækisins. „Við erum með rúmlega 200 viðskiptavini í 18 löndum, en langflestir viðskiptavinirnir eru staðsettir á þessum heimamörkuðum okkar; Íslandi, Danmörku, Bretlandi og Kanada."

Byrjaði sem verkefni í HÍ

Að sögn Hauks gerir lausn AGR fyrirtækjum kleift að lágmarka bundið fé í birgðum, auk þess að bæta verkferla við vörustýringu.

„Þetta er fyrirtæki sem er rúmlega tuttugu ára gamalt og á upphaf sitt að rekja til verkefnis nokkurra nemenda við verkfræðideild Háskóla Íslands. Við þróum, innleiðum og þjónustum eigin hugbúnaðarlausn sem reiknar út söluspár, sem sagt hver eftirspurnin er, og reiknar út frá því innkaupatillögur fyrir smásölur og heildsölur," útskýrir Haukur og bætir við:

„Þetta er í raun ákvarðanatökukerfi sem greinir söguleg gögn og segir til um hvenær það þurfi að kaupa inn birgðir, og hversu mikið hverju sinni. Stærðfræðilíkan áætlar hversu mikið tiltekið fyrirtæki muni selja næstu daga, vikur og mánuði. Kerfið sér svo um innkaupin og getur gert bæði söluáætlanir sem og fjárhagsáætlanir. Við erum nýlega farin að færa okkur inn í að gera fjárhagsáætlanir og eru nokkrir viðskiptavina okkar nú þegar farnir að gera fjárhagsáætlanir sínar í gegnum lausnina okkar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .