Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka, hefur varað við því að verðbólga gæti verið orðin 4% um næstu jól, ef matar-, olíu- og húsnæðisverð heldur áfram að hækka.

Þetta segir King í bréfi til Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands og eykur með því áhyggjur manna af stýrivaxtahækkunum.

Vísitala neysluverðs í Bretlandi var 3% í apríl og 3,3% í maí. Hærri hefur hún ekki verið síðan 1992 og er þetta í annað sinn sem verðbólgan fer yfir verðbólgutakmark Englandsbanka, sem er 2%, síðan 1997.

Sé húsnæðisverð tekið með inn í dæmið var verðbólga í maí 4,2%.